Velkomin á Um Erlu
Erla Guðmundsdóttir heilsumarkþjálfi og ráðgjafi
Líkamsrækt, þjálfun og heilsutengd málefni hafa alltaf verið mér hugleikin og rauði þráðurinn í mínu lífi. Mér finnst fátt meira gefandi en að aðstoða, fræða og hvetja fólk áfram þegar kemur að því að bæta eigin heilsu og auka almenna vellíðan og lífsgæði.
Ég stofnaði HeilsuErlu - heilsumarkþjálfun og ráðgjöf með það markmið að efla fleiri til þess að huga að heilsu sinni heildrænt og ná langvarandi árangri.
Hver er ég?
Ég er fertug þriggja barna móðir, eiginkona og íþróttafræðingur með mastersgráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík. Ég útskrifaðist sem heilsumarkþjálfi frá Institute for Integrative Nutrition (IIN) í apríl 2020 og stunda nú nám í næringarþjálfun hjá Precision Nutrition.
Í dag kenni ég jóga og líkamsrækt við Menntaskólann við Hamrahlíð. Árið 2006 stofnaði ég Ungbarnasund Erlu og hef kennt ungbarnasund í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði síðan. Þar að auki hef ég þjálfað fólk á öllum aldri í CrossFit síðastliðin 11 ár. Á þessum tíma hef ég einnig náð góðum árangri sem keppandi í CrossFit.
Mín heilsuvakning
Lífið er alls konar og öll þurfum við að takast á við mismunandi erfiðleika og áföll, sinna heimili, vinnu og fjölskyldu og það getur verið erfitt að finna jafnvægi milli þess að sinna daglegum skyldum og að gefa sér tíma til að rækta sjálfan sig og sinna heilsunni.
Mín heilsuvakning varð eftir að ég hafði unnið sem flugfreyja í 5 ár. Ég var í vaktavinnu, vann ýmist á nóttunni eða daginn, og svaf mjög óreglulega. Ég fór að finna fyrir heilsuleysi, síþreytu og þráði jafnvægi í líf mitt. Ég upplifði togstreitu milli einkalífs og vinnu og mér fannst ég ekki geta sinnt fjölskyldunni og sjálfri mér eins og ég vildi.
Hraustari, hamingjusamari og hugrakkari
Þó að vinnan hafi verið mjög skemmtileg og ég öðlaðist ómetanlega reynslu, þá fann ég hins vegar að umgjörð starfsins hentaði mér ekki. Ég áttaði mig á hvað skipti mig mestu máli í lífinu – fjölskyldan og heilsan mín.
Ég er mjög þakklát fyrir þessa reynslu, því hún varð til þess að ég setti heilsuna mína í fyrsta sæti - var hvatinn til að ég hóf nám í heilsumarkþjálfun, – sem hefur nú leitt mig á þann stað sem ég er í dag – hraustari, hamingjusamari og hugrakkari.