Heilsupistlar
Verum raunsæ!
06 / 04 /2021
deila
Verum raunsæ - kröfurnar eru miklar.

Kröfur samfélagsins eru miklar. Við eigum að sofa nóg, borða hollt, fara út að hlaupa, lyfta lóðum, stunda sjósund, drekka vatn, hugsa jákvætt, fara í kalda sturtu, stunda þakklæti, sinna vinnu, sinna fjölskyldu, sinna heimili, elda mat, hugsa um okkur sjálf, anda með nefinu, vera skipulögð, hitta vini, mæta í saumaklúbb og foreldrafundi, skutla, sækja, þrífa og svo mætti endalaust telja.

Eru þetta okkar eigin kröfur eða kröfur samfélagsins? Við þurfum að stoppa og líta til beggja hliða áður en við örkum út í daginn og muna að heilsa snýst um að finna sitt jafnvægi, líkamlega, andlega og félagslega.

Það er ekki raunhæft að ætla að gera allt af þessu ofantöldu, við þurfum að vera raunsæ og velja það sem gefur okkur orku en tekur ekki frá okkur. Ef við viljum bæta heilsuna þurfum við að hafa eftirfarandi í huga.

  • Að halda góðri heilsu er krefjandi.
  • Að breyta venjum tekur tíma.
  • Það er mikilvægt að einbeita sér bara að einu atriði í einu.
  • Hænuskref koma þér á leiðarenda.
  • Vertu góð/ur við sjálfa/n þig og hrósaðu þér fyrir það sem þú gerir vel.
  • Lærðu að meta framfarir umfram fullkomnun.
  • Gerðu ráð fyrir hindrunum.