Í tilefni konudagsins. Hvað er ofurkona?
Elsku kona, til hamingju með konudaginn. Gefðu sjálfri þér bestu gjöfina, endurskilgreindu hvað hlutverkið Ofurkona felur í sér. Njóttu lífsins, farðu vel með þig og fyrst og fremst gefðu þér rými til að huga að heilsunni þinni.
Hér áður fyrr kippti ég mér ekkert upp við það þegar talað var um ofurkonur, en á undanförnum árum þá hef ég áttað mig á því, í fyrsta lagi að skilgreining samfélagsins á ofurkonu er óraunhæf og í öðru lagi að það er nær ógerlegt að vera ofurkona í þeim skilningi og halda heilsunni.
Dugnaður er oft talin hin mesta dyggð og konum er sífellt hrósað fyrir að vera svo duglegar að sinna fullu starfi, heimili, félagslífi og jafnvel námi, allt á sama tíma og svo er það þessi blessaða þriðja vakt sem er mikið í umræðunni þessa dagana. Það gefur auga leið að við erum oft á tíðum með allt of mörg járn í eldinum og á endanum mun eitthvað gefa eftir. Því miður er það oft heilsan okkar.
Í dag átta ég mig sem betur fer á því að ofurkona er alls ekki kona sem getur allt eða gerir allt, heldur er það kona sem kann að segja nei, kona sem kann að forgangsraða og hlusta á innsæið. Ofurkona er kona sem nýtur lífsins með samferðafólki sínu án samviskubits. Ofurkona er einfaldlega kona sem er hún sjálf og stendur með sjálfri sér.
Ég hef upplifað það á eigin skinni að vera með of marga bolta á lofti, þrífast á hrósinu um að vera ofurkona en í dag geri ég mér grein fyrir því að þetta er ekki gerlegt til lengdar og lífsgæði mín hafa margfaldast eftir að ég sagði upp ,,ofurkonustarfinu”.
Ég stóð mig líka sjálfa að því að hrósa öðrum konum fyrir dugnað. Það er að sjálfsögðu í góðu lagi að hrósa fyrir það sem vel er gert en áður en þú segir: Vel gert ofurkona! skaltu hugsa þig tvisvar um. Mögulega er hægt að hrósa fyrir annað sem gagnast viðkomandi betur.
Ég fæ að minnsta kosti sting í hjartað þegar einhver kallar mig ofurkonu þó að viðkomandi meini vel. Ég tengi það við fyrri reynslu þegar ég var með allt of marga bolta á lofti og ,,klessti á vegg”. Ættum við ekki frekar að hrósa okkur og öðrum fyrir það að geta sett okkur mörk, fyrir það að gefa okkur tíma til þess að næra okkur sjálf andlega, líkamlega og félagslega?
Elsku kona, til hamingju með konudaginn. Gefðu sjálfri þér bestu gjöfina, endurskilgreindu hvað hlutverkið Ofurkona felur í sér. Njóttu lífsins, farðu vel með þig og fyrst og fremst gefðu þér rými til að huga að heilsunni þinni.
p.s. Smelltu hér ef þig vantar hugmyndir um hvernig er gott að nýta tíma sinn sem best til að auka vellíðan og hámarka heilsuna.