Unnar Már er löggiltur osteópati sem rekur Osteo Heilsumiðstöð. Þrátt fyrir ungan aldur (miðað við mig hahaha) hefur hann aðstoðað marga við að finna jafnvægi í lífi sínu og bæta þannig heilsuna. Áhugasamir getið fundið hafsjó af fróðleik á Instagram síðun sinni.
Unnar Már er með aðstöðu bæði í Reykjavík og Reykjanesbæ og tekur þér og þínum ávallt opnum örmum. Hann er tilbúinn að deila þekkingu sinni og aðstoða þig í að taka rétt skref í átt að betra lífi og heilbrigði. Hægt er að bóka tíma á osteo.is og hafa samband við Unnar í gegnum osteo@osteo.is.
Hver er Unnar Már?
Ég er uppalinn í Reykjanesbæ, fæddur árið 1994. ég hef einhvern veginn alltaf verið mikill spekúlant þegar kemur að heilsu og líkamanum og það var nokkuð ljóst fyrir mér snemma að ég myndi starfa í geira er varðar heilsuna. Ég hugsa mikið um allt sem spilar inn í mína heilsu og vellíðan og reyni eftir bestu getu að vera gott fordæmi þar sem ég er jú að reyna að hjálpa fólki daglega að taka heilsuna föstum tökum. Ég hef spilað fótbolta á hæsta leveli á íslandi og stunda ennþá fótbolta en meira upp á félagsskapinn og hreyfinguna í dag heldur en áður fyrr.
Ég tók í raun stefnuna meira út í osteópatíuna þegar ég meiddist á hné árið 2016, en ég er mikill íþróttamaður og finnst mér fátt skemmtilegra en að taka góða æfingu hvort sem það er í ræktarsalnum eða í fótboltanum. Hreyfing er jú geðvítamín og við ættum öll að reyna að finna okkur hreyfingu sem okkur líkar.
Hvað er góð heilsa fyrir þér?
Góð heilsa fyrir mér er í raun eins streitu-frítt líf og mögulegt er. Þegar ég hugsa um heilsuna þá hef ég alltaf orðið ‘’jafnvægi’’ í huga, alveg sama hvað við erum að tala um. Við þurfum að hafa gott jafnvægi í öllu sem við gerum.
Svefninn þarf að vera í góðu jafnvægi, andlega og líkamlega heilsan þarf að spila rétt saman og vera í jafnvægi og svo þarf næringin okkar einnig að vera í jafnvægi þar sem það er jú okkar ,,bensín’’. Allt þetta spilar svo saman og er í raun hvert og eitt (svefn, næring, líkamleg heilsa, andleg heilsa) eins og púsl inn í heildarmyndina. Ef okkur vantar eitt púsl eða það er lélegt þá hefur það áhrif á heildarmyndina og dregur okkur þar af leiðandi niður.
Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?
Ég fylgist mikið með Mark Hyman sem er læknir og að mínu mati einn sá fremsti þegar kemur að því að skoða heilsu og heilbrigði út frá þessari heildrænu nálgun sem ég tel vera svo mikilvæg fyrir okkur öll.
Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?
Svefn, hreint mataræði án öfga og skipulag.
Að sofa mína 8+ tíma á hverri nóttu er eitthvað sem ég persónulega þarf, við erum öll mismunandi en ég þarf mína átta tíma í það minnsta til þess að fúnkera í því sem ég er að gera.
Ég hugsa vel um hvað ég er að borða, aðallega hversu hrein fæðan er og hvaðan hún kemur. Ég er lítið fyrir ýkjur, en ég huga aðallega að því að fæðan sé eins nálægt því að vera beint úr náttúrunni og eins lítið unnin og hægt er.
Svo finnst mér mikilvægt að vera vel skipulagður, þar sem það takmarkar óþarfa streitu þegar kemur að því að mæta á réttum tíma og fleira.
Hvað myndir þú ráðleggja yngri þér?
Að vera aðeins meira gagnrýninn á ,,normið’’. Mér finnst við og sérstaklega Íslendingar sýna áberandi mikla hjarðhegðun og þegar ég segi hjarðhegðun þá meina ég að við erum mikið í því að elta hvað næsti maður og fjöldinn er að gera og tileinka sér. Ég er alls ekki að segja að við eigum að setja út á allt sem næsti maður gerir, heldur mynda okkar eigin skoðun út frá okkar eigin reynslu!
Getur þú sagt okkur aðeins frá því hvað osteopatía er og hvernig það getur haft jákvæð áhrif á heilsuna að leita til ostopata?
Osteópatía er heimspeki er varðar heilsu. Heimspeki þessi tekur mið af því að einstaklingur við góða heilsu geti aðlagað sig að mismunandi álagi og viðhaldið jafnvægi sínu og virkni. Samt sem áður er styrkur hans til að aðlagst áföllum ekki ótakmarkaður og upp geta komið atvik sem líkaminn getur ekki leiðrétt án utanaðkomandi hjálpar. Í þessum tilvikum getur osteópati hjálpað þér. Osteópatar greina og meðhöndla stoðkerfis vandamál sem geta skert heilsu og vellíðan.
Osteópatía er vel þekkt fyrir virkni sína gegn verkjum í stoðkerfi, en er einnig gagnleg við fjölda mismunandi einkenna og vandamála í ungabörnum, börnum og fullorðnum. Osteópatar líta svo á að hvert vandamál sem fólk kemur með sé einstakt og þurfi því að meta hvert vandamál fyrir sig. Með því að nota þrautþjálfað snertiskyn sitt leita þeir upp svæði sem orsaka vandamál. Með því að nota nærgætnar teygjur og liðkanir, sem og að losa um liðamót, vinnur osteópatinn að því að skapa umhverfi í líkamanum sem ýtir undir að líkaminn lækni sig sjálfur.
Meðhöndlunin samanstendur yfirleitt af almennum vöðva- og bandvefsslakandi aðferðum og nákvæmum losunum á liðamót og mjúkvefi (vöðva, sinar og liðbönd). Einnig eru gjarnan gefin ráð um hvað skjólstæðingur getur gert til að hjálpa sér sjálfur. Osteópatía er 4-5 ára háskólanám sem felst í að greina og meðhöndla stoðkerfavandamál. Osteópatía getur hjálpað með flest þau vandamál sem stafa frá stoðkerfi líkamans, hvort sem um er að ræða langtíma- eða bráðavandamál. Osteópatía er löggild heilbrigðisstétt skv. reglugerð 1131/2012.
Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?
Góður hafragrautur er líklega minn uppáhalds morgunmatur, kærastan mín er líklega sú besta í að græja hann á ýmsa vegu en við erum dugleg að breyta innihaldinu í honum eftir stuðinu sem við erum í. Við erum þó alltaf með ferska ávexti í grautnum og oftast með hnetu- eða möndlusmjör líka. Svo er hægt að toppa með ýmsu öðru hollu góðgæti eins og kókosflögum eða einhverju slíku.
Áttu þér Uppáhalds mottó/quote?
Já, ég fylgi því mottói að:
Eitthvað að lokum?
Við lifum í ótrúlega hröðu og streitumiklu samfélagi, sérstaklega hér í höfuðborginni. Við þurfum öll að vera meðvituð um okkar eigin heilsu og vellíðan og taka eftir því þegar líkaminn okkar eða andlega hliðin er að pikka í okkur og gefa okkur merki um að það þurfi að ,,laga eitthvað’’ eða breyta einhverjum venjum. Mér finnst gott að taka dæmið með vélaljósið á bílnum, við myndum aldrei setja límmiða yfir vélarljósið á bílnum okkar ef það væri að loga gult eða rautt! Þess vegna skulum við hugsa jafn vel eða enn betur um okkar eigin líkama og sál og hlusta á gulu eða rauðu flöggin sem líkaminn okkar er að kasta fram.