logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Þuríði Erlu
01 / 08 /2021
deila
Thuri Helgadottir games athlete

Þuríður Erla Helgadóttir eða Þurí (Thuri) eins og hún er alltaf kölluð er hæfileikarík og metnaðarfull íþróttakona. Í fyrradag (1.ágúst) lauk hún sínum áttundu heimsleikum og er þrettánda hraustasta kona heims. Þessi magnaða og dásamlega stelpukona fagnaði þrítugsafmæli sínu úti í Madison í miðri keppni. Það hefur verið svo geggjað að fylgjast með henni vaxa og dafna sem íþróttakonu síðasta áratug og fá að hvetja hana á hliðarlínunni bæði í Ólympískum lyftingum og CrossFit.

Þurí er blíð og góð en mjög ákveðin (góður kostur þegar þú ert heimsklassa CrossFittari) og er með einn mest smitandi hlátur í heimi. Þegar hún skellir upp úr þá fara allir nálægt líka að hlæja. Það verður gaman að fylgjast með henni áfram.

Hver er Þuríður Erla Helgadóttir?

Ég er 30 ára CrossFittari og búsett í Sviss. Ég hef keppt í CrossFit og Ólympískum lyftingum frá árinu 2010 og var að ljúka mínum sjöttu Heimsleikum sem einstaklingur. Áttundu ef ég tel með 2 skipti sem ég fór með liði frá CrossFit Sport.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa fyrir mér er að líða vel andlega og líkamlega meira og minna alla daga. Auðvitað geta allir átt daga þar sem þeir gera eitthvað sem telst ekki gott fyrir heilsuna en ég held að til að viðhalda góðri heilsu þarf stundum bara að fá sér það sem manni langar í og gera það sem manni langar til að gera. Ég held að það fái okkur ennþá meira til að halda í okkar venjur sem eru góðar fyrir okkur því okkur líður yfirleitt illa eftir sukk.

Átt þú þér fyrirmynd eða fyrirmyndir hvað varðar heilsu?

Ég held að ég sé óafvitandi með fyrirmyndir og þær eru margar. Allir sem mér finnst vera gera góða hluti eða skara fram úr á sínu sviði. Ég get haft fyrirmyndir í stuttan tíma og langan og það getur verið nánast hver sem er.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Ég hef aldrei átt erfitt með að mæta á æfingu eða borða hollt, það var bara eitthvað sem ég hef viljað gera frá því ég var unglingur. Reyndar svona þegar ég er að skrifa þetta man ég að ég nennti oft ekki á æfingu sem barn. (hehehe)

Hvað hefur lífsreynslan kennt þér sem þú vildir að þú hefðir vitað?

Ættli það sé ekki að hafa ekki áhyggjur af því hvað aðrir eru að gera eða hvað aðrir halda um mig og hafa trú á sjálfri mér.

Hefur kórónufaraldurinn haft mikil áhrif á þig og þitt líf, hvort sem er til betri eða verri vegar?

Faraldurinn hafði þau áhrif að mér fannst ég smá einangruð hérna í Sviss, það var ekki auðvelt að fara heim né fyrir fjölskyldu og vini að koma til mín. Annars var ég mjög heppin að geta æft og var með æfingaaðstöðu og ýmislegt skemmtilegt sem ég og kærastinn minn gátum brallað hérna í Sviss eins og að fara á skíði í vetur. En covid gerði það samt að verkum að æfingar voru oft mjög erfiðar þar sem ég var mikið alein á æfingum.

Hvar sérð þú þig eftir 10 ár?

Ég sé mig fyrir mér á Íslandi, mögulega með eitt lítið kríli og eina háskólagráðu. Ennþá að æfa CrossFit og þjálfa.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju? Viltu deila ,,uppskrift” með lesendum?

Ég fæ mér alltaf hafragraut á morgnanna set eitthvað prótein útí, oftast með súkkulaði eða kaffibragði, 1/2 banana, hnetusmjöri eða möndlusmjöri, helst berjum (jarðaberjum eða granatepli) og möndlumjólk. Ég fæ mér oftast líka 3-4 egg með spínati, papríku eða tómötum. Ég fæ mér þennan morgunmat því ég fæ næga orku fyrir æfingu og mér finnst hann góður.

Áttu þér uppáhalds mottó/quote?

Ég á ekki uppáhalds en. mér finnst þetta mjög gott:

“It's not the size of the dog in the fight, it's the size of the fight in the dog.”
― Mark Twain

Nú hefur þú nýlokið keppni á þínum áttundu heimsleikum, var reynslan eitthvað öðruvísi en áður?

Já þetta var aðeins öðruvísi en seinustu 2 skipti þegar ég var með þjálfara, fjölskyldu og vini með mér en Kristján, kærasti minn stóð sig samt rosalega vel og við vorum gott team. Það var líka aðeins meira "special" í ár þar sem það voru ekki venjulegir heimsleikar á síðasta ári og undanfarið ár hafa bara verið online keppnir. Þegar við vorum komin hingað út til Madison og tveimur dögum áður en keppnin átti að hefjast var ein stelpa dottin úr keppni því hún greindist með covid. Þá fékk maður smá reality check að vera komin alla leiðina hingað, hafa æft fyrir þetta seinustu 2 ár og eiga í hættu á að vera hreinlega tekin úr keppni ef maður fengi covid einkenni.

Hver var uppáhalds wodið/ keppnisgreinin þín á þessum leikum?

Uppáhalds greinin mín var örugglega kaðla wodið, en það gekk ótrúlega vel og kaðlaklifur er ein af mínum uppáhalds hreyfingum. 

Wod 5
4 umferðir á tíma:

4 kaðlaklifur
400m ski erg
Sandpokaburður (The Husafell Stone)

(Innskot frá Erlu) Það er skemmtilegt að segja frá því að sandpokarnir voru gerðir eftir fyrirmynd íslensks aflraunasteins og kölluðu skipuleggjendur The Crossfit Games sandpokana the Húsafell Stone sandbag. Ísland hefur heldur betur sett mark sitt á CrossFit íþróttina enda íslenskir keppendur staðið sig frábærlega á síðustu árum.