logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Guðbjörgu Finns
03 / 04 /2021
deila
Guðbjörg Finns

Fyrsti viðmælandi heilsumolans er engin önnur en Guðbjörg Finnsdóttir, eða Guðbjörg Finns eins og hún er ávallt kölluð. Ég var svo heppin að kynnast henni árið 2005 þegar við unnum saman í Hreyfingu. Í þá gömlu góðu daga var tónlist skrifuð á geisladiska og mér er sérstaklega minnistætt þegar Guðbjörg bauð mér heim til sín til þess að skrifa tónlist á diska fyrir „aerobic- og pallatímana“. Hún er alveg einstök, alltaf boðin og búin að hjálpa og alveg frábær fyrirmynd hvað varðar heilsu og heilbrigðan lífsstíl. Guðbjörg rekur G Fit í Garðabæ og hefur án ef breytt lífi margra til hins betra með þvi að vera einstaklega góð fyrirmynd. Þeir sem fylgjast með henni á Instagram vita að hún situr aldrei auðum höndum. Guðbjörg var samt meira en til í að gefa sér smá tíma til þess að deila visku sinni með ykkur lesendum. Njótið vel.

Hver er Guðbjörg Finns?

Ég útskrifaðist úr ÍKÍ árið 1989 og kynntist þar þolfimi, ég var strax ákveðin í því að ná langt á þeim vettvangi. Fór eitt sumar til Kaliforníu og sogaði þar allt tengt heilsurækt til að læra meira. Meðfram íþróttakennslu í skóla til 2006 vann ég sem hóptímakennari, einkaþjálfari og kenndi fjölda kennara- og einkaþjálfara námskeiða. Átti mjög góð 19 ár með Ágústu Johnson og kennarateyminu okkar og árið 2012 fékk ég tækifæri með mína eigin heilsurækt og stofnaði G fit heilsurækt í Garðabæ. Ég hef alltaf haft mikla hreyfiþörf og nýt þess að miðla minni reynslu til fólks og taka þátt í lífsstílsbreytingu til góðs. Það er gott finna sig eiga nóg eftir en samt víst hokin af reynslu. Tíminn er alltof fljótur að líða.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa er líkamlegt og andlegt jafnvægi og þú berð ábyrgð á því.

Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?

Ég var svo heppin að ná byrjuninni á líkamsræktaræði landans og þá var Jane Fonda fyrirmyndin og enn í dag gæta áhrif hennar, bæði í æfingum og hugsun hennar um umhverfismál.

Ágústa Johnson er mér líka góð fyrirmynd. Markmiðið er alltaf að vinna með æfingar og miðla mataræði án allra öfga. Mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir hvað þjálfarinn er að leggja til og fái ráðleggingar frá fagfólki.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Held að sú venja sem ég hef tamið mér til að lifa heilbrigðu lífi sé jákvæðni. Þú færð ákveðinn skammt af jákvæðni en svo þarftu alltaf minna þig á mikilvægi þess og temja þér hana. Með jákvæðni tekst þér að hrífa nemendur þína með þér og þú kemst svo miklu lengra áfram. Það er alltaf hægt að sjá jákvæðni í öllum verkefnum sem þú færð og leggur fyrir þig.

Hvað myndir þú ráðleggja 10 árum yngri þér?

Einu sinni var ég alltaf yngst í hópnum en núna er ég konan með reynslu, tíminn er svo fljótur að líða. Fyrir þá yngri myndi ég segja að gera það sem þér líður vel með að gera og láta ekkert stoppa þig. Finndu ástríðu þína og fylgdu henni. Mundu að vera alltaf þú sjálfur, það er alltof of mikið af óraunveruleika sem er sýndur til að sýna einhverja glansmynd.

Ef ég myndi ofhugsa hlutina þá væri ég líklega ekki búin að gera allt það sem ég er búin að gera í dag. Það er aldrei gott að mikla hlutina of mikið fyrir sér, við getum það sem við viljum gera. Ég kem alltaf heim eftir vinnu sátt og sæl í hjarta og það segir mér að markmiði mínu er náð.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?

Einfaldur morgunmatur á við mig en um helgar þá breyti ég til. En alltaf um leið og ég vakna þá fæ ég mér gott eplaedik í vatnglas, 1 engifers-túrmerik skot og 1 glas af rauðrófudufti í vatn. Síðan er það einfaldi morgunmaturinn sem er t.d. ab-mjólk með smá kefir bland út í. 1 msk. hampfræ, 1 msk. mulin hörfræ og bláber. Kaffibolli með góðu collageni frá Feel Iceland setur svo punktinn yfir i-ið. Ég vel það sem lætur mér líða vel og þannig finnst mér það líka gott.

Áttu þér uppáhalds mottó?

Everything happens for a reason

Er eitthvað annað sem þig langar að segja eða koma á framfæri?

Hreyfing - hollt mataræði - betri hvíld. Um leið og hreyfing er komin inn þá er auðveldara að borða hollt og þú hvílist miklu betur. Hreyfing er alltaf valdurinn sem gefur þér betra líf. Besta vítamínið sem þú býrð til sjálfur.