Heilsumoli vikunnar er Bergsveinn Ólafsson eða Beggi Ólafs eins og hann er oftast nefndur. Beggi er einlægur, drífandi og fróðleiksfús ungur maður sem mörg ykkar kannist líklega við enda heldur hann uppi einu vinsælasta hlaðvarpi landsins um þessar mundir, 24/7. Beggi er sannur heilsumoli, hefur brennandi áhuga á sálfræði, andlegri vellíðan, heilsu og öllu sem tengist persónulegri þróun. Hann elskar að aðstoða fólk við að finna sína ástríðu og tilgang og lifa þannig innihaldsríku lífi.
Ef þið viljið kynnast Begga betur þá er hann með heimasíðuna Beggiolafs.is auk þess sem ég mæli með að fylgja honum á Instagram.
Hver er Bergsveinn Ólafsson?
Beggi Ólafs er einlægur einstaklingur sem hjálpar fólki að lifa innihaldsríku lífi svo að hver og einn einasti geti gert heiminn að betri stað. Hann er doktorsnemi í sálfræði og höfundur bókarinnar 10 skref í átt að innihaldsríku lífi.
Hvað er góð heilsa fyrir þér?
Góð heilsa fyrir mér er heildræn heilsa, ekki bara það að einblína á það sem flokkast undir líkamlega heilsu heldur einnig það sem flokkast undir félagslega og andlega heilsu. Allt hefur þetta áhrif á hvort annað.
Líkamleg heilsa fyrir mér er að huga að svefninum mínum, borða mat sem ég veit að er góður fyrir mig og hreyfa mig. Félagsleg heilsa fyrir mér er að vera í góðum tengslum við mína nánustu og aðra. Hvað varðar andlega þáttinn þá reyni ég að vera duglegur að gera það sem ég veit að gerir mér gott eins og að skrifa og tala við aðra, auk þess að nýta aðferðir til að minnka streitu eins og hugleiðslu, að setja sér markmið, gera góðverk og tjá þakklæti.
Heilt yfir er góð heilsa að gera hluti sem eru góðir fyrir mig svo að ég geti fúnkerað sem best til þess að sinna því sem ég brenn fyrir.
Átt þú þér fyrirmyndir hvað varðar heilsu?
Já ég á nokkrar fyrirmyndir en mín allra stærsta fyrirmynd er afi minn sem er 94 ára. Hann hefur alla tíð farið tvisvar sinnum í viku í laugina og lyft þrisvar sinnum í viku og gerir það enn í dag. Hann hefur alltaf hugsað um að borða þokkalega góðan og næringarríkan mat. Afi hefur heillað mig mikið og ég lít upp til allra þeirra sem eru heilbrigðir og hraustir á efri árum. Þau eru sönnun þess að það sem við gerum í dag hefur áhrif á hversu gæðamikil ár við höfum varðandi heilsu í framtíðinni. Mér finnst því mikilvægt að sinna heilsunni minni svo að ég geti orðið eins og afi. <3
Hvað leiddi þig á þá braut sem þú ert í dag?
Ætli byrjunin sé ekki sú að sálfræðikennarinn minn í menntaskóla kveikti áhuga minn á sálfræði. Ég valdi svo það sem mér þótti ,,skást” þegar ég skráði mig í háskóla því ég vissi í raun ekki í hverju ég vildi mennta mig, þar sem að ég stefndi alltaf að því að verða atvinnumaður í fótbolta. Ég lauk B.sc gráðu í sálfræði þrátt fyrir að hafa ekkert sérstakan áhuga á því. En í Mastersnáminu greip mig eitthvað við sálfræðina sem gaf mér svakalega ástríðu og tilgang, sem ég hafði áður haft fyrir fótboltanum, en hafði nú yfir færst yfir á námið og það að afla mér upplýsinga sem gætu hjálpað mér og öðrum. Það tók því dágóðan tíma að þróa ástríðuna á sálfræðisviðinu.
Það sem leiddi mig líka á þessa braut, að hjálpa fólki með öllum tilheyrandi leiðum, er að ég finn að það gefur mér svo svakalega mikið. Ég tel að það sé mitt hlutverk og trúi því að ég geti haft góð áhrif á líf annars fólks. Ætli það sé ekki líka ákveðin ástríða og þrá fyrir því að ná árangri eins og ég hafði í boltanum.
Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?
Mitt besta G vítamín er hreyfing, svo er mikilvægt að ná 8 klukkustunda svefni og borða óunnin mat, þ.e. mat sem hvorki hefur verið tekið úr né bætt í heldur kemur beint úr náttúrunni. Það er mikilvægt að plana tíma fyrirfram til þess að hitta vini og taka frá tíma til að verja með maka því félagsleg heilsa skiptir ótrúlega miklu máli. Ég elska líka kuldann, hvort sem það er sjósund, köld sturta eða ísböð. Þá tel ég það mikilvægt að við setjum okkur reglulega markmið og sjáum fyrir okkur hvernig einstaklingar við viljum verða. Svo þurfum við að taka skref í áttina að því á hverjum degi og vinna að því að gera það að veruleika smám saman.
Hvað myndir þú ráðleggja yngri þér, þ.e. hvað hefur lífsreynslan kennt þér sem þú vildir að þú hefðir vitað?
Í fyrsta lagi myndi ég ráðleggja yngri mér að átta sig á hversu gott maður hefur það. Þó að maður sé að stefna að einhverju og það sé krefjandi þarf að muna að njóta líðandi stundar. Við lítum svo oft til baka og hugsum ,,Vá ég vissi ekki hvað ég hafði það gott". Ég minni mig á þetta daglega. Eftir nokkur ár mun ég líta á daginn í dag og hugsa: ,,Tíminn sem þú ert að fara í gegnum er ánægjulegur". Ég myndi því ráðleggja yngri mér að njóta meira og vera þakklátur fyrir hlutina sem eru í gangi hverju sinni.
Það sem ég hef líka lært er að við erum aldrei við fulla stjórn í lífinu. Ef við höldum að við getum stjórnað öllu og vitað allt þá verður meiri örvænting og meiri pressa á manni. Lífið verður meiri kvöl og pína. Við verðum að trúa og treysta, taka ábyrgð á því sem við getum tekið ábyrgð á og stjórnað því sem við getum stjórnað. Síðan er það bara undir lífinu komið hvert það tekur okkur. Það munu óhjákvæmilega koma upp aðstæður í lífinu sem koma okkur á óvart og hafa áhrif á okkur. Það sem við getum gert er að stjórna þeim hlutum sem munu hjálpa okkur að mæta slíkum áskorunum í framtíðinni. Ég myndi því ráðleggja yngri mér að sleppa tökunum.
Ef þú fengir ofurkraft í einn dag, hver yrði fyrir valinu og afhverju?
Það væri að geta ,,Teleportað” mig þangað sem ég myndi vilja fara, t.d. á staði í heiminum og jafnvel eins og tímavél. Ferðast aftur í tímann og geta farið í aðstæður í lífinu mínu eða í mannkynssögunni og lært af þeim tíma.
Það væri líka gaman og þægilegt að nota þennan ferðamáta, ég gæti verið kominn til Akureyrar eða Afríku á einni sekúndu og heimsótt alla staði sem mig langar að sjá. Það myndi spara hellings tíma og ég lært mikið af því að fá að skoða mismunandi staði og menningarheima. Þannig gæti ég lært af fortíðinni, hvað var að virka vel þá og jafnvel í framtíðinni ef það væri hægt.
Ef ég hefði þennan ofurkraft í ein dag myndi ég heimsækja allar heimsálfur á einum degi, verja nokkrum klukkustundum á hverjum stað og skoða átta undur veraldrar. Með þessum ofurkrafti gæti ég skoðað staði sem tæki venjulega nokkra mánuði að skoða og kynnst fólki á hverjum einasta stað. Ég held að það yrði skemmtilegt, innihaldsríkt og gefandi.
Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?
Ég borða ekki eiginlegan morgunmat, þar sem að ég fasta til kl.13 eða 14. Þá fer ég vanalega á Spíruna í Garðheimum þar sem ég fæ mér yndislega og heilsusamlega rétti sem eru allir eldaðir frá grunni eða fer heim og geri mér grænan smoothie með t.d. grænkáli, papríku, hampfræjum, bláberjum, engiferi og alls konar innihaldsefnum sem ég veit að gera líkamanum gott. Með því fæ ég mér oft tofu sem ég steiki á pönnu eða epli með kasjúhnetusmjöri. Ég borða mikið af hnetum og möndlum og hugsa um næringu sem bensín. Svo lengi sem bensínið nærir mig þá fæ ég mér það. Þetta er sem sagt grunnurinn í morgunmatnum mínum, ef morgunmat má kalla.
Áttu þér Uppáhalds mottó/quote?
Þetta er eitt uppáhalds mottóið mitt sem drífur mig áfram! Með þessu er átt við að það býr svo mikið í okkur öllum, svo mikil möguleg geta og það er verkefni okkar að átta okkur á því og uppfylla það. Þetta er eilífðarverkefni, við áttum okkur á því hvað í okkur býr og leggjum vinnu í að hámarka það. Þetta er vegferð sem gerir lífið að innihaldsríkum stað.
Eitthvað að lokum?
Kíkið endilega á Hlaðvarpið 24/7 sem finna má á spotify, youtube og helstu hlaðvarpsveitum. Tilgangurinn með hlaðvarpinu er að læra af fólki og fá innsýn í þeirra líf, ekki ósvipað þeim spurningum sem ég hef fengið hér í dag. Til þess að við sem hlustendur getum lært af öðru fólki.
Að lokum, farið út í heiminn og leggið vinnu í það að gera lífið ykkar og fólkið ykkar aðeins betra. Hlutverk allra skiptir mál. Ég hef fulla trú á því að þið hafið innilega mikilvægt hlutverk að geyma. Verkefni ykkar er að hámarka það sem í ykkur býr því að þá getið þið sinnt hlutverki ykkar eins vel og þið getið og um leið gert samfélagið betra og heiminn betri.