logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Ert þú tilbúin/nn í þitt heilsuferðalag?
27 / 03 /2021
deila
Ert þú tilbúin/nn í þitt heilsuferðalag?

Þegar nýtt ár gengur í garð eigum við það oft til að setja okkur of háleit og óraunhæf markmið. Það er mjög mikilvægt að einbeita sér bara að einu atriði í einu og taka hænuskref í átt að betri heilsu.

Nýtt ár - ný tækifæri

Þegar nýtt ár gengur í garð eigum við það oft til að setja okkur of háleit og óraunhæf markmið. Það er mjög mikilvægt að einbeita sér bara að einu atriði í einu og taka hænuskref í átt að betri heilsu. Ég trúi því að litlar breytingar á lífsstíl geti breytt lífinu til hins betra til langs tíma litið. Það er líka gott að hafa í huga að heilsa er ferðalag en ekki áfangastaður. Mig grunar að það hafi enginn séð eftir því að fara í heilsuferðalag og því að bæta heilsu sína. Þegar þú lítur aftur eftir nokkra daga, vikur, mánuði eða ár muntu sjá hversu langt þú hefur komist. Þú fyllist stolti og þakklæti og þá er enn auðveldara að halda áfram.

Að setja sér markmið

Til þess að vita hvert þú vilt stefna, þ.e. hvaða þætti heilsunnar þú vilt bæta er nauðsynlegt að setja sér markmið. Heilsutengd markmið geta verið allt sem hefur góð áhrif á þín heilsu. Svefn, hreyfing, mataræði, samvera, starfsframi eða annað. Settu þér markmið með jákvæðu hugarfari því það er auðveldara að fara þangað sem þú óskar, heldur en burt frá einhverju sem þú óskar ekki. Það verður að vera á þínu valdi að ná markmiðinu. Það þýðir að hægt sé að ná markmiðinu. Þú ert sjálf/ur ábyrgur fyrir breytingunum. Reyndu að skilgreina markmiðið eins nákvæmlega og hægt er. Hvað viltu gera, hvernig vilt þú framkvæma það eða hvernig viltu að þér líði? Hvernig veistu hvenær þú hefur náð markmiðinu? Skrifaðu markmiðin niður og bútaðu markmiðin niður í smærri markmið og skapaðu nýjar venjur sem styðja við markmiðin.

Mikilvægt er að setja sér skemmtileg markmið sem vekja upp góðar tilfinningar. Ef markmiðið þitt er t.d.að hlaupa hálfmaraþon í sumar en þér finnst hundleiðinlegt að hlaupa er ólíklegt að þú farir reglulega út að hlaupa og þar af leiðandi náir markmiðinu. Ég mæli með að skrifa markmiðin niður og segja öðrum frá þeim því þá eru mun meiri líkur á því að þú vinnir í þeim. Það er heldur ekki nóg að setja sér markmið og láta þar staðar numið heldur verður þú að útbúa áætlun um hvernig þú ætlir að ná markmiðinu. Segjum sem svo að markmiðið sé að læra að elda hollari mat þá þarftu að ákveða hvernig þú ætlir að fara að því. Ætlar þú á námskeið, ætlar þú að lesa bækur, hversu oft í viku ætlar þú að elda og hvenær o.s.frv.

Hvað þarf að hafa í huga í upphafi heilsuferðalags?

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er ekki til skyndi- eða skammtímalausn til þess að halda góðri heilsu heldur er þetta spurning um lífsstíl. Þetta snýst allt um venjur! Um leið og eitthvað er orðið að vana er það auðvelt. En það getur tekið á að breyta gömlum vana sem er ekki að gagnast okkur og hefur neikvæð áhrif.

Það er líka mikilvægt að velta því fyrir sér af hverju við viljum bæta heilsuna. Um leið og við horfum inn á við og finnum raunverulegu ástæðuna fyrir því af hverju við viljum bæta heilsuna og breyta venjum okkar verður heilsuferðalag okkar mun auðveldara.

Þú getur spurt þig spurninga eins og:

  • Langar mig að líða betur?
  • Langar mig að lifa heilbrigðara lífi?
  • Langar mig að vera góð fyrirmynd?
  • Langar mig að vera betra foreldri?
  • Langar mig að vera betri íþróttamaður/kona?
  • Langar mig að lifa lengur?
  • Langar mig að auka lífsgæði mín?