Ef einhver hefði sagt við mig fyrir ári síðan að ég myndi hlaupa Laugaveginn (55km) í sumar þá hefði ég líklega skellt upp úr. Þó að ég sé ágætis íþróttakona og hafi gaman að því að hreyfa mig, hef ég mest megnis stundað þjálfun sem er stutt og kröftug eins og fimleika, crossfit og lyftingar. Ég komst hins vegar að því að með aðstoð markmiða er allt hægt! Draumar geta orðið að veruleika.
Markmiðið
Til þess að gera langa sögu stutta er ég í félagskap frábærra orkumikilla kvenna sem nefnist Hlaupa-lyfta-leika (HLL). Við eigum það sameiginlegt, fyrir utan það að vera hrikalega skemmtilegar, að vera á besta aldri milli 35 og 55 ára, æfa eða hafa æft í CrossFit Sporthúsinu og hafa gaman að alls konar hreyfingu og útivist.
Í upphafi árs stakk ein úr hópnum upp á því að við myndum hlaupa Laugaveginn, frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk á tveimur dögum í lok ágúst. Ég verð að viðkurkenna að ég var hikandi í fyrstu en hugsaði svo að ég hefði gott af því að fara út fyrir þægindarammann. Mér hafði aldrei þótt neitt sérstaklega gaman að hlaupa og hafði þegar hér kom við sögu lengst hlaupið 12 km. Því fannst mér þessi áskorun ansi krefjandi.
Ég tók áskoruninni og setti mér markmið. Það varð auðvitað að vera SMART markmið þ.e. skýrt, mælanlegt, aðgerðamiðað, raunhæft og tímasett. Ég fór því yfir það hvernig ég ætlaði að ná þessu markmiði.
- Er markmiðið skýrt? Já, hlaupa/ganga Laugaveginn á tveimur dögum.
- Er markmiðið mælanlegt? Já.55km. 26 km fyrri daginn og 29 km þann seinni.
- Er markmiðið aðgerðamiðað? Hér kom svo að aðalatriðinu, þ.e. að gera mér fjársjóðskort í átt að fjársjóðnum mínum. Hvernig ætlaði ég að ná þessu markmiði?
- Er markmiðið raunhæft? Með rúma 6 mánuði til stefnu taldi ég markmiðið raunhæft.
- Er markmiðið tímasett? já 20.-21.ágúst 2021.
Hvernig náði ég markmiðinu? (Fjársjóðskortið mitt)
Ég byrjaði á því að fjárfesta í rétta búnaðinum, t.d. utanvegahlaupaskóm og hlaupavesti. Ég fór að mæta á hlaupaæfingar einu sinni í viku í hlaupahóp auk þess að taka af og til hlaup með HLL hópnum sem lengdust eftir því sem nær dró hlaupi. Ég var dugleg að fara reglulega út að ganga, einstaka Himnastigaferð líka og dró stundum manninn og soninn út að hjóla og ég hljóp með þeim. Við vinkonurnar vorum duglegar að hvetja hvora aðra áfram og margar tóku þátt í ýmsum öðrum utanvegahlaupum í sumar til þess að undibúa sig.
Í byrjun ágúst fórum við svo allar 21 km hlaup í þeim útbúnaði sem við ætluðum að vera í á Laugaveginum. Við vorum reyndar margar í sumarfríi úti á landi en létum það ekki stoppa okkur og fórum út að hlaupa hér og þar á landinu. Hvatningin skipti mig ótrúlega miklu máli og ég er ekki viss um að ég hefði haldið mér við efnið nema að hafa félagsskapinn. Það var alveg magnað hvað mér leið vel eftir 21 km hlaup í Kjarnaskógi og þar í kring og þá vissi ég að ég gæti náð markmiðinu mínu. Ég fékk mikla trú á mér og hlakkaði mikið til Laugavegshlaupsins.
Laugavegshlaupið sjálft var svo algjört æði, einstök samvera og ótrúleg náttúra. Við fengum alls konar veður en það skipti engu máli enda er ein uppáhalds mantran mín, „þetta snýst ekki um veðurfar heldur hugarfar“. Það voru svo 12 alsælar konur sem skokkuðu niður í Langadal á seinni deginum, reynslunni ríkari og búnar að ná langþráðu markmiði.
Það er nefnilega oft þannig að innri hvatningin kemur þegar við erum búin setja okkur markmið og byrjuð að vinna að þeim. Það gerðist einmitt hjá mér í þessu tilfelli. Mér finnst utanvegahlaup orðin skemmtileg og fer út að hlaupa mér til heilsubótar sem ég gerði sjaldan áður. Ef við setjum okkur aldrei markmið er líklegra að við séum föst í sömu sporunum. Markmið eru líka góð leið til þess að halda sér við efnið og þó að markmið náist ekki þá erum við alltaf komin lengra en áður en við settum okkur markmiðið.
Ég breytti draumi í veruleika með aðstoð markmiða. Þú getur það líka.