logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Að finna gleðina á ný
18 / 09 /2021
deila
Andleg heilsa

Síðastliðið vor gekk allt sinn vanagang og allt lék í lyndi (að ég hélt) en einn daginn þá gerðist eitthvað, það var eins og ég hefði stigið ofan í holu. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið og ég áttaði mig ekki á því alveg strax hvað hafði komið fyrir. Ég grét bara og grét og vissi ekki hvað sneri upp og hvað sneri niður. Ég hafði týnt gleðinni.

Ég sem er svo lífsglöð og jákvæð stóð nú frammi fyrir því að sjá hversdagsleikann grárri en áður. Eftir að hafa lokað mig af í þrjár vikur fór ég að ræða líðan mína við fleiri en manninn minn, sem hafði staðið með mér eins og klettur allan tímann. Ég ræddi við bæði vini, fjölskyldu og sálfræðimenntaða einstaklinga og komst að því að holan sem ég var í, var bara smá áminning. Ég hafði verið með allt of marga bolta á lofti í einu og á endanum varð eitthvað að gefa eftir.

Boltarnir mínir voru margir og þeir veittu mér allir ánægju og gleði, hver á sinn hátt. Vinnan, fjölskyldan, áhugamálin, heilsan, fyrirtækjarekstur, nám, æfingar, ég gæti haldið áfram. Einn boltinn var alþjóðlega crossfit keppnin Crossfit Open, þar sem ég kom sjálfri mér á óvart og endaði í 13. sæti á heimsvísu í mínum aldursflokki. Ég átti engan veginn von á þessum árangri þar sem ég hafði æft fyrir ánægjuna og gleðina sem æfingarnar veittu mér. Ég vann mér inn þátttökurétt í framhaldskeppni (seinni qualifier) og fólk í kringum mig spurði ítrekað hvort ég væri á leiðinni á heimsleikana í Crossfit. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu slíkar spurningar ekki haft áhrif á mig en allt í einu upplifði ég ákveðna pressu á mig, pressu sem ég átti ekki von á og hafði ekki upplifað áður og það var þessi tilfinning sem gerði útslagið. Ég gugnaði, varð hrædd við að gera mistök, hrædd um að standa mig ekki, hrædd um að bregðast öðrum og undirmeðvitundin tók yfir.

Þar sem að ég var komin á brúnina þá brotnaði ég saman (hrundi ofan í holuna) í stað þess að taka áskoruninni eins og ég var vön að gera. Ég fór í nokkurs konar sjálfseyðingar gír (self sabotage) sem er þekkt fyrirbæri í sálfræði og gerði í raun allt sem ég gat til að skemma fyrir sjálfri mér af því að ég var hrædd um að mistakast. Ég átti ekkert eftir á tanknum á þessum tímapunkti. Ég sem hafði alltaf elskað að hreyfa mig og borða hollt missti algjörlega áhugann á hreyfingu og fór að borða „rusl“. Félagsveran ég vildi frekar vera ein eða með fjölskyldunni.

Enn þann dag í dag, nokkrum mánuðum síðar er ég ekki alveg komin upp úr holunni. Mikil þolinmæði, sjálfsvinna, samræður og aðstoð hafa hins vegar skilað miklu og ég finn og veit að ég er langt komin – þó ég sé ekki alveg komin í mark. Ég, heilsumarkþjálfinn, fékk heldur betur að læra það á eigin skinni hvað það skiptir miklu máli að vera meðvitaður um eigin heilsu og að það sem ég er að kenna öðrum virkar. Að gera litlar breytingar smám saman, eitt skref í einu, einn dagur í einu, hænuskref, vera þolinmóð (sem ég á afar erfitt með), setja mér markmið og hugsa um heildræna heilsu með því að finna jafnvægi í andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og festa góðar venjur í sessi til frambúðar.

Þetta var mjög skrítið og langt tímabil sem tók vissulega á en það sem er svo magnað er hvað ég upplifi mikið þakklæti þegar ég lít til baka. Ég er þakklát fyrir hluti sem ég tók áður sem sjálfsögðum. Æfingagleðin mín er komin aftur, ég elska að mæta á æfingar, hitta fólk og svitna og hef loksins virkilega gaman af því taka æfingu, meira að segja alein. Ég er farin að hugsa aftur um mat sem næringu, eldsneyti fyrir kroppinn og heilann og er þakklát fyrir það. Ég huga betur að svefninum mínum og fækka boltunum sem ég held á lofti. Ég missti bara jafnvægið í smá tíma, en ég náði því aftur.

Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að mig langar að minna á að lífið er alls konar og við erum öll að ganga í gegnum eitthvað.

"Everyone is fighting a battle you know nothing about. Be kind - Always."

Það geta allir lent í því að „klessa á vegg“ og því er afar mikilvægt að við hugsum vel um okkur sjálf á hverjum degi og forgangsröðum hlutum. Vörumst að taka að okkur of mörg verkefni, gætum þess að sofa nóg, nærast vel, hreyfa okkur alla daga og njóta þess að vera til. Öll hreyfing er góð og það þarf ekki alltaf að fara á æfingu. Þegar mér leið illa fór ég í göngutúr á hverjum degi, stundum hlustaði ég á uppbyggilegt hlaðvarp eða hljóðbók en oft nýtti ég bara tímann til þess að hugsa, hugleiða og taka til í kollinum. Við megum ekki ganga á varatankinn okkar, heldur þurfum við að fylla á tankinn okkar jafnóðum með því að huga að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu okkar.

Í dag gef mér rými til að „bara vera“ og njóta augnabliksins. Það tekur sinn tíma að koma alveg til baka eftir svona og það er enn í vinnslu. Ég er ekki alveg orðin gleðisprengjan Erla, sem mig langar að vera en ég er samt virkilega þakklát fyrir þessa lífsreynslu, því mér finnst hún gera mig að enn betri einstaklingi, móður, kennara, þjálfara og heilsumarkþjálfa. Nú get ég sett mig enn betur í spor þeirra sem eru í svipaðri stöðu og get sagt mína sögu, deilt minni reynslu. Ég minni mig reglulega á að það er í lagi að gera mistök, það er í lagi að segja nei, það er í lagi að gera ekki neitt á meðan við erum að gera hluti á okkar eigin forsendum erum við að gera það rétta fyrir okkur sjálf. Við þurfum að leyfa okkur að vera til og njóta hverrar stundar.

Ekki bíða eftir því að komast á einhvern áfangastað þar sem allt verður í lagi, mundu að njóta líka ferðalagsins.

,,Life is not about waiting for the storm to pass. It is about learning how to dance in the rain“

Við þurfum heldur ekki endilega að læra af eigin mistökum. Við getum nefnilega nýtt okkur þekkingu sem aðrir hafa viðað að sér með reynslu eða mistökum. Í leiðinni er gott að minna okkur á að ef við stöndum frammi fyrir því að tapa gleðinni, þá er hún oftast bara handan við hornið. Við þurfum bara að fylla á orkutankinn okkar til að finna hana aftur.