logo
HeilsuErla
Hlaðvarp
1.þáttur. Kynning á hlaðvarpinu. Hvað er heilsa og frumnæring?
09 / 08 /2023
deila
Með lífið í lúkunum kynning

Með lífið í lúkunum. 1 þáttur.

Í þessum fyrsta þætti kynnist þið Erlu, stjórnanda hlaðvarpsins. Erla er íþróttafræðingur M.sc og Heilsumarkþjálfi og hefur brennandi áhuga á því að fræða og hafa jákvæð áhrif á heilsu þjóðarinnar. Erla er einnig íþróttakennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefur kennt ungbarnasund síðan árið 2006 í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. 

Hvað er heilsa? Við munum fá mörg ólík svör við þeirri spurningu í komandi hlaðvarpsþáttum með því að skoða heilsuna frá ýmsum sjónarhornum t.d. varðandi geðheilsu, líkamlega heilsu, mataræði, svefn, raddheilsu, tannheilsu, fjárhagslega heilsu, sköpunargleði, taugakerfið, breytingaskeið, kynheilbrigði, líkamsmeðvitund og margt margt fleira.

Skilgreining (Alþjóða heilbrigðisstofnunar) WHO er:
Heilsa er algjör líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan, en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.“

Hefur þú velt því fyrir þér hvernig þú skilgreinir heilsu? En skilgreiningin getur breyst eftir því sem lífsreynslur þroska okkur.



Hvað er frumnæring?
Það er ekki nóg að borða bara gulrætur og grænkál til þess að öðlast góða heilsu. Til þess að finna jafnvægi í lífinu þarf að huga að frumnæringu sem felst í okkar daglegu athöfnum. Það er okkur lífsnauðsynlegt að staldra við og endurskoða samskipti, atvinnu, hreyfingu, andlegt jafnvægi og fleira.

Við vanmetum oft þessa þætti, teljum ekki til næringar og veitum því sjaldnast athygli hvernig okkur líður.

Ef við viljum bæta heilsuna þurfum við að skoða alla þætti sem hafa áhrif á hana og meta hvar við erum í ójafnvægi. Það er nefnilega oftast þannig að ef við erum í ójafnvægi á einu „sviði“ smitar það yfir á annað og okkur líður ekki nóg vel andlega og líkamlega. Það er t.d. þekkt af ef þú ert í sambandi sem gengur á afturfótunum eða óánægð/ur í vinnunni er líklegra að þú huggir þig með óhollum mat, vímuefnum eða öðru sem hefur neikvæð áhrif á heilsuna.

Með því að vinna í þeim þáttum sem eru raunverulega að hafa neikvæð áhrif á heilsu okkar finnum við smám saman jafnvægi á öllum vígstöðvum.
Fyrir mér er heilsa svo miklu meira en nokkurra vikna ,,tískubylgja“. Heilsa er ferðalag!

Heilsuferðalag okkar snýst um að gera smám saman breytingar á lífsstílnum. Góð heilsa er afrakstur allra þeirra ákvarðanna sem við tökum daglega og þeirra venja sem við temjum okkur í lífinu. Allt snýst þetta um að taka stjórn á eigin heilsu og gera uppbyggilegar breytingar. Við erum með Lífið í lúkunum.

Þættirnir verða u.þ.b. 30-70 mínútur og því er tilvalið að nýta tækifærið og slá tvær flugur í einu höggi og hlusta á einn eða tvo þætti á meðan þú ferð í gönguferð, út að hlaupa eða sinnir heimilisstörfum.

Hlustið á 1.þáttinn hér

og fylgið einni heilsuerla á Instagram